Hobbitinn eftir J.R.R. Tolkien er kominn í frábærri nýrri þýðingu Solveigar Sifjar Hreiðarsdóttur. Bragi Valdimar Skúlason sá um að þýða bundið mál. Hobbitinn fæst í netverslun Kvers, í öllum verslunum Pennans Eymundsson og öðrum betri bókabúðum. Hér á eftir fer umfjöllum Kolbrúnar sem birtist í Sunnudagsmogganum 8.-9. nóvember:
Snilldarlega vel skrifuð fantasía
Hobbitinn, hin fræga bók Tolkiens, er komin út í þýðingu Solveigar Sifjar Hreiðarsdóttur, en hún er þaulvanur þýðandi sem hefur þýtt um tuttugu bækur. Bragi Valdimar Skúlason þýðir bundna málið.
Solveig Sif Hreiðarsdóttir hefur þýtt Hobbitann eftir J.R.R. Tolkien en bókin er nýkomin út hjá bókaforlaginu Kver. Kápumynd bókarinnar er eftir Tolkien og sömuleiðis myndir sem prýða bókina.
Bilbó Baggi er hobbiti sem býr í notalegri hobbitaholu. Líf hans breytist dag einn þegar vitkinn Gandalfur birtist ásamt þrettán dvergum og heimtar að hobbitinn fari með þeim í hættulegan leiðangur til að ná fjársjóði sem drekinn Smeyginn liggur á.
Solveig segir: „Tolkien vefur textann á sinn einstaka hátt sem gerir það að verkum að sagan lifnar við í huga lesandans. Eins og fyrir einhvern töframátt grípur textinn lesandann strax í fyrstu málsgrein:
„Í holu einni í jörðinni bjó hobbiti. Þetta var ekki neinn ógeðslegur, vatnskenndur leðjupyttur, iðandi af ormum og fúlli lykt. Þetta var heldur ekki þurr hola í sandi þar sem hvergi var hægt að setjast niður og ekkert til að borða. Nei, þetta var hola sem hobbiti bjó í og það þýddi aðeins eitt: þægindi.“
Þessi lýsing, og jafnframt orðið hobbiti, er auðvitað afskaplega framandi en fyrir einhvern galdur hljómar hún engu að síður eins og sjálfsagður hlutur í huga lesandans. Nafn hobbitans, Bilbó Baggi (e. Bilbo Baggins), er að sama skapi afar frumlegt. Höfundur heldur svo áfram að lýsa hobbitanum: híbýlum hans, heimahögum, fjölskyldu (og hvort ævintýragenið í honum er ættað frá móður hans Belladonnu Tókadóttur eða föður, Bungó Bagga), notalegu heimili hans, ást hans á hversdaglegu lífi og dálæti hans á mat og kökum, en ekki síst einstakri gestrisni Bilbó Bagga. Þessi gestrisni hans er ef til vill að einhverju leyti orsök þess að hann heldur í þessa óvæntu ævintýraferð. Hér er þroskasaga á ferðinni og svo miklu meira, því svo sannarlega er Bilbó „litli maðurinn“ í fleiri skilningi en einum, sem sigrar hið ósigranlega, og líklega stendur Bilbó Baggi fyrir mannkynið sjálft og hugrekkið sem hefur einkennt það í tímans rás.“
Stórfenglegar lýsingar
Hobbitinn er gríðarlega ástsæl saga sem hefur áður verið þýdd á íslensku en það er langt um liðið. „Mig langaði til að þýða þessa bók. Hún er svo skemmtileg,“ segir Solveig. „Tolkien skapar nýja veröld í Miðgarði og gerir það af miklu listfengi og natni. Nöfn dverganna sækir hann til að mynda í Dvergatal í Völuspá og fyrir vikið verður enginn ruglingur með það hver er hvað, nöfn og persónur þeirra eru vel skilgreind og það er eitthvað þegar um þrettán dverga er að ræða. Tolkien var nefnilega málvísindamaður og prófessor í fornum norrænum málum við Oxfordháskóla.“
Spurð hvað hafi verið erfiðast við að þýða bókina segir Solveig: „Allt!“ og bætir við: „Þýðingin var áskorun, var ekki auðveld og tók langan tíma. Íslenska þýðingin þarf að koma sögusviðinu sjálfu vel til skila þannig að ekki sé verið að svíkja lesandann. Lesandi sem les á íslensku á að upplifa það sama og sá sem les á ensku.
Í viðtölum við Tolkien hefur komið fram að hann hafi haft sérstakt dálæti á náttúrunni og landslagi. Það skín líka í gegn í dásamlegum lýsingum hans á trjám, blómum og dýraríkinu, að ógleymdum illvígum köngulóm, bústnum hunangsflugum, talandi hestum og djúpvitrum hröfnum.
Lýsing höfundar á landslaginu er ekki síður stórfengleg: mikilfengleg fjöll og fjallgarðar þar sem drekar eða drýslar ráða ríkjum, dularfullir klettar, straumharðar ár með bröttum bökkum sem komast þarf yfir og drungalegur skógur sem lifnar óhugnanlega við í myrkrinu.
Landslagslýsingin var ef til vill stærsta áskorunin í þýðingunni, ekki síst þar sem leiðangurshópurinn fer ekki síður inn í fjöll og fjallgarða en yfir og í hvert sinn sem það gerist er lesandinn leiddur inn í nýjan heim. Að byggja þessa stórkostlegu veröld á íslensku, veröld sem höfundurinn skapaði á þennan snilldarlega hátt, er höfuðatriðið í þýðingunni. Samtölin eru mun auðveldari því þau eru oft hrein og bein, þó svo að þar sé að ýmsu að gæta og ekkert atriði er smáatriði.
Svo má líka nefna að enskan er ekki mjög auðug að þjóðsögum um tröll og álfa eða geðilla og háðska dreka sem liggja á gulli, en það er íslenskan aftur á móti. Höfundurinn leitar augljóslega í þennan norræna sagnaarf og að því leyti naut ég þess sem þýðandi. Einnig var ómetanlegt að kynna sér vandaða og fræðilega umfjöllun Ármanns Jakobssonar um verk Tolkiens.“
Bragi Valdimar aðstoðaði
Þó nokkuð er af bundnu máli í bókinni og Solveig fékk Braga Valdimar Skúlason til að þýða þann hluta. „Ég treysti mér ekki í það verkefni og veit að bundið mál í Hobbitanum hefur vafist fyrir fleiri þýðendum. Í bókinni eru líka gátur og það er mikilvægt að þær séu rétt þýddar, en þær eru mestmegnis í bundnu máli.
Ég vona svo sannarlega að þýðingin sé góð og ég veit að þýðing Braga Valdimars er óskaplega fín og ég er honum afar þakklát fyrir að taka þetta flókna verkefni að sér.“
Bókin Hobbitinn hefur heillað unga jafnt sem aldna lesendur. „Hobbitinn og Hringadróttinssaga, þríleikurinn sem er framhaldið af Hobbitanum, eru einn af tindunum í bókmenntasögunni og víða er vitnað í þessi verk. Það er talað um Hobbitann sem barnabók en að mínu mati og margra annarra er það misskilningur,“ segir Solveig. „Þetta er snilldarlega vel skrifuð fantasía sem er undanfari Hringadróttinssögu þannig að hún er allt eins fyrir börn, ungmenni og fullorðna. Í Bókatíðindum er hún til að mynda auglýst í öllum aldurshópum, það þótti sjálfsagt. Vel skrifaðar bækur höfða til stórs hóps lesenda, óháð aldri. Ég myndi þó ekki mæla með henni fyrir ung börn því hún er myrk á köflum.“
Solveig er þaulvanur þýðandi. Hún hefur þýtt um tuttugu bækur, þar af tíu eftir hinn vinsæla barnabókahöfund Roald Dahl. Þýðing hennar á Á hjara veraldar eftir breska rithöfundinn Geraldine McCaughrean hlaut tilnefningu til Íslensku þýðingaverðlaunanna 2022 og tilnefningu til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar í flokki þýðinga það sama ár. Einnig hlaut verkið Lockwood og co. – Öskrin frá stiganum eftir breska rithöfundinn Jonathan Stroud tilnefningu til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar í flokki þýðinga fyrr á þessu ári.

0 comments